154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:09]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að búin að skrifa hérna niður einhverja punkta á blað en ég get eiginlega ekki orða bundist þegar hæstv. fjármálaráðherra kemur hér trekk í trekk upp í ræðustól og talar um það að allir þeir þingmenn sem hann gagnrýna skilji ekki fjárlögin. Mér finnst eiginlega blasa við að það er hæstv. fjármálaráðherra sem ekki skilur. Hann talar hérna um að ríkisstjórnin hafi verulega góða sögu að segja. En það skiptir auðvitað máli að sú saga sé rétt og hún sé sönn. Það er bara ekki þannig að það sé bara stjórnarandstaðan sem er að benda á framsetninguna, það gera hefðbundnir hagaðilar líka; verkalýðshreyfingin, aðilar vinnumarkaðarins. Ég sé ekki betur en að markaðurinn sýni rautt eftir að frumvarpið var kynnt. Og þegar ég les Morgunblaðið í dag þá er þar í leiðaranum verið að benda á það sem við í Viðreisn höfum dálítið verið að tala um, frumjöfnuðinn blessaðan, sem ótýnd alþýðan hljóti að gleðjast yfir að nóg sé til af. Það skiptir máli að segja söguna eins og hún er. Hverjar eru heildartekjurnar? Hver eru heildarútgjöldin? Hver er heildarafkoman?

Hæstv. fjármálaráðherra talar mikið um afkomubata, frumjöfnuð. Mér heyrist hann hér vera að leiðrétta eigið fjárlagafrumvarp um vaxtakostnað. Það stendur í frumvarpinu að hann er 111 milljarðar. Sá kostnaður kemur til greiðslu (Fjármrh.: Nei.) — auðvitað kemur hann til greiðslu, það er spurning hvenær hann kemur til greiðslu. Þá bíður hann bara næstu ríkisstjórnar eins og öll önnur verkefni sem hér eru á borðinu.

Hann talar um hagvöxtinn, öfundsverða stöðu þar og það var eiginlega spurningin sem ég ætlaði að beina til hans; hvernig hæstv. ráðherra sér stöðuna hvað það varðar að hagvöxtur á Íslandi á mann er lægri en í nágrannaríkjum okkar, af því að ráðherra var nú að biðla til okkar að fara endilega í samanburð. Hann er lægri en í nágrannaríkjum okkar. Hann er lægstur hér af öllum OECD-ríkjum. Það er meiri súpa í pottinum en það er stöðugt verið að þynna hana. Hvaða áhrif hefur þetta atriði? Er ég fjórði þingmaðurinn hér í röð sem ekki skilur?